Ársskýrsla Faxaflóahafna 2018

Íslands Hrafnistumenn

Íslands Hrafnistumenn
lifðu tímamót tvenn,
þó að töf yrði á framsóknar leið.
Eftir súðbyrðings för
kom hinn seglprúði knörr,
eftir seglskipið vélknúin skeið.
En þótt tækjum sé breytt,
þá er eðlið samt eitt ­
eins og ætlunarverkið, er sjómannsins beið.

Hvort sem fleytan er smá
eða seglprúð að sjá
og hvort súðin er tré eða stál,
hvort sem knýr hana ár
eða reiði og rár
eða rammaukin vél yfir ál,
hvert eitt fljótandi skip
ber þó farmannsins svip.
Hann er ferjunnar andi og hafskipsins sál.

Hvort með heimalands strönd
eða langt út í lönd
á hann leið yfir ólgandi flóð,
gegnum vöku og draum
fléttar tryggðin þann taum,
sem hann tengir við land sitt og þjóð.
Þegar hætt reynist för,
þegar kröpp reynast kjör,
verpur karlmennskan íslenska bjarma á hans slóð.

Örn Arnarson
F. 1884 – D. 1942