Ávarp stjórnarformanns

Í síbreytilegum heimi er mikilvægt fyrir fyrirtæki og stofnanir að vera vel vakandi. Heimurinn er kvikur og víða blikur á lofti. Hamfarahlýnun, tækniframfarir, hnattvæðing og almennar viðhorfsbreytingar krefjast þess að fyrirtæki sýni samfélagslega ábyrgð og hafi kjark til að gera breytingar til að lifa af. Faxaflóahafnir eru í fremstu röð og hafa hingað til leitt þróunina hvort sem er í umhverfismálum eða tæknimálum hafna á Íslandi – þar hyggjumst við vera áfram og verkefni næstu ára eru að tryggja framþróun á öllum starfssvæðum Faxaflóahafna.

Árið 2018 var rekstrarlega gott og er afkoman betri en gert hafði verið ráð fyrir. Fram á mitt árið mátti sjá aukningu í vöruflutningum en telja má að þar hafi ákveðnu hámarki verið náð. Framkvæmdir og verkefni á vegum hafnarinnar hafa almennt gengið vel og í samræmi við áætlanir.

Á síðustu þremur árum hefur verið unnið að nýjum hafnarbakka utan Klepps sem nú hefur hlotið nafnið Sundabakki. Sundabakki er mikilvæg framkvæmd í framþróun fyrirtækisins og tryggir okkur áfram í fremstu röð – undirbúin að þjóna næstu kynslóð flutningaskipa.

Á árinu setti nefnd á vegum nýsköpunar og atvinnuvegaráðuneytisins fram tillögu að aðgerðaráætlun fyrir orkuskipti í höfnum sem er mikið fagnaðarefni. Faxaflóahafnir hafa verið leiðandi í rafvæðingu hafna á Íslandi og styrkt lág- eða svonefndar millispennutengingar í höfnunum og síðan 2015 hafa öllum skipum sem geta tengt sig í rafmagn verið skylt að tengja sig. Með þátttöku ríkisins verður hægt að undirbúa enn stærri skref enda er það skýr samfélagslegs krafa að stærri skip geti jafnframt tengt sig við rafmagn. Á árinu 2018 var sett af stað vinna við áætlun um næstu skref við landtengingar skipa í Faxaflóahöfnum.

Á árinu var hafin vinna við öryggis- og jafnlaunavottun auk þess sem stjórn samþykkti áhættustefnu fyrir fyrirtækið.

Innheimta farþegagjalda hófst á árinu og gekk það vel. Ákvörðun um slíka gjaldtöku var tekin árið 2015 í góðu samráði við hagsmunaðila og munu þau gjöld standa undir bættum innviðum fyrir ferðaþjónustuna. Undirbúningi fyrir nýtt ferðaþjónustuhús á Ægisgarði lauk á árinu 2018 en framkvæmdum var frestað til ársins 2019.

Á Íslandi hafa hafnir landsins í gegnum tímans rás verið sannkallaðar lífæðar og Faxaflóahafnir gegna enn í dag mikilvægu hlutverki á öllum sínum starfssvæðum. Faxaflóahafnir búa yfir fjárhagslegum styrk, öflugum mannauði og skýrri sýn á framtíðina. Ólík starfssvæði kalla á ólíkar áherslur en það er þó sammerkt að Faxaflóahafnir eru hvarvetna leiðandi á öllum sviðum hafnarþjónustu og sýna ríka samfélagslega- og umhverfislega ábyrgð. Í síbreytilegum heimi hyggjumst við halda því óbreyttu að vera þessi lífæð og að hjartað slái áfram í höfninni.

Kristín Soffía Jónsdóttir,
stjórnarformaður