Ýmis verkefni

Ýmis verkefni

Hér á eftir fer upptalning nokkurra verkefna sem unnið var að á árinu 2018:

  •   Unnið var að jafnlaunavottun og miðað við að jafnlaunavottun liggi fyrir á árinu 2019.
  •   Hafist var handa við öryggisstjórnunarkerfi og stefnt að því að vottað öryggisstjórnunarkerfi liggi fyrir í lok árs 2019.
  •   Á árinu var boðin út smíði á nýjum dráttarbáti fyrir Faxaflóahafnir og gert ráð fyrir að sá bátur hefði 80 tonna togkraft, en það er tvöföldun miðað við togkraft Magna. Miðað er við að nýr bátur verði afhentur í lok árs 2019 eða byrjun árs 2020.  Útboðið var kært til Kærunefndar útboðsmála og niðurstöðu nefndarinnar beðið.
  •   Stjórn Faxaflóahafna ályktaði um loftslagmál og kom þar m.a. fram áskorun um að innan landhelgi Íslands verði reglur um innihald brennisteinssambanda í eldsneyti skipa hertar umfram þær reglur sem taka gildi 1. janúar 2020. Jafnframt var ályktað um nauðsyn þess að fjármunum verði ráðstafað á fjárlögum til þess að styrkja landtengingar skipa.
  •   Undirrituð var viljayfirlýsing Faxaflóahafna og Reykjavíkurborgar um viðræður varðandi kaup borgarinnar á Hafnarhúsinu, en Reykjavíkurborg hefur áhuga á því að gera húsið að miðstöð menningar og lista. Faxaflóahafnir skoða hins vegar þann möguleika að koma starfsemi sinni fyrir á einni starfsstöð í Reykjavík, á landfyllingu við Klettagarða.
  •   Unnin var skýrsla KPMG um skipulag og starfsemi í Sundahöfn, en skoða þarf ýmis atriði vegna framtíðarskipulags, þróunar og starfsemi á svæðinu.
  •   Samþykkt var stefna um endurmenntun starfsmanna.
  •   Unnar voru skýrslur um atvinnustarfsemi í Gömlu höfninni, Grundartanga og Sundahöfn, en skýrslurnar hafa verið unnar á fjögurra ára fresti og gefa glögga mynd af þróun á svæðunum.
  •   Á seinnihluta árs 2018 var innsiglingu í Sævarhöfða lokað. Sævarhöfði hefur um 40 ára skeið þjónað til efnisvinnslu og innflutnings á salti og biki til malbiksgerðar.  Með nýju skipulagi er þar nú gert ráð fyrir íbúðabyggð og innsigling að bryggju í Sævarhöfða orðin svo grunn að þangað verður ekki lengur siglt með stærri skip.
  •   Faxaflóahafnir eru stærsti einstaki hluthafinn í Eignarhaldsfélaginu Speli hf., sem er eigandi Spalar ehf., sem átti og rak Hvalfjarðargöng. Endurgreiðslu stofnkostnaðar ganganna lauk í lok september 2018 og var þá gjaldtöku hætt.  Í framhaldi voru Spalarfélögin sameinuð og nú unnið að slitum félagsins.
  •   Í október var að vanda haldið málþing á vegum Faxaflóahafna um verkefni fyrirtækisins og málefni sem áhugaverð eru í tengslum við hafnarstarfsemina. Málþingið hefur verið árlegur viðburður síðustu ár. Á málþinginu komu málefni smábátaútgerða sérstaklega til tals og var í framhaldi gerð könnun á málefnum þessara útgerða, sem ætlunin er að vinna með í því skyni að stuðla að eflingu þessarar atvinnugreinar við Faxaflóa.