Umhverfismál

Umhverfismál

Sem nefnt hefur verið hafa umhverfismál verið vaxandi þáttur í starfsemi Faxaflóahafna sf. Helstu mælingar og eftirlit á sviði umhverfismála Faxaflóahafna má sjá í grænu bókhaldi, sjávargæðamælingum á hafnarsvæðum fyrirtækisins og útblástursbókhaldi.    Faxaflóahafnir sf. starfa samkvæmt vottuðu umhverfisstjórnunarkerfi, sem undirstrikar mikilvægi þessa málaflokks í starfseminni, en leggur jafnframt skyldur á herðar fyrirtækinu að vinna samkvæmt þessu stjórnunarkerfi. Vottunin er samkvæmt staðlinum ISO 14001. Nú hefur verið hafin vinna við að fá vottun á öryggisstjórnunarkerfi Faxaflóahafna sf., en vottuð stjórnunarkerfi skilgreina ýmsa þætti og verkferla, sem eiga að skila jákvæðri niðurstöðu í starfseminni. 

Árið 2016 samþykkti stjórn Faxaflóahafna sf. að öll skip sem tengst geta landrafmagni verði að tengjast. Á þeim grundvelli hefur verið unnið að úttektum á rafdreifikerfi hafnarinnar og undirbúið að styrkja lágspennukerfið í Gömlu höfninni, en á Akranesi hefur tenglum verið bætt við núverandi kerfi.  Samhliða því hefur verið unnið að öflun upplýsinga um háspennukerfi, sem mikilvægt er að þjóni stærri skipum í framtíðinni með það að markmiði að draga úr losun koltvísýrings og brennisteins eins og kostur er. Með tilliti til skuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist er ljóst að til þess að ná árangri á þeim vettvangi verða hafnir og útgerðaraðilar að taka þær skuldbindingar alvarlega og vinna markvisst að minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda.  Þrátt fyrir að sjóflutningar séu almennt hagkvæmur flutningamáti þá eru tækifæri til að gera betur en gert er í dag á þessu sviði.  Stjórn Faxaflóahafna sf. hefur ályktað um að bann varði sett við notkun svartolíu í Norðurhöfum, setningu reglna um losun brennisteins í landhelginni og hvernig standa þurfi að fjármögnun landtenginga skipa.  Þá er í samstarfi við Hafið-öndvegissetur og Íslenska NýOrku ehf. unnið að úttekt á landtengingu flutningaskipa í Sundahöfn.