Niðurlag

Niðurlag

Áður hefur verið nefnt að hafnarsvæði Faxaflóahafna eru í sífelldri þróun og verkefnin framundan fjölbreytt og nokkur þeirra viðamikil.  Þegar framkvæmdum við nýjan hafnarbakka utan Klepps lýkur er komið að næsta stórverkefni, sem er lenging Skarfabakka yfir í Kleppsbakka og landgerð á um 8 hektara svæði í Vatnagörðum.  Ætla má að það verkefni standi yfir í undirbúningi og framkvæmd á árunum 2020 til 2026.  Samhliða þessu standa vonir til þess að í Sundahöfn verði unnt að landtengja flutningaskipin, en unnið er að skoðun á hvernig nálgast megi það verkefni.

Hafa ber í huga að Faxaflóahafnir njóta engra opinberra styrkja til framkvæmda og verða að vera sjálfbærar hvað varðar rekstur, viðhald og þróun.  Því er sem fyrr mikilvægt að fyrirtækið sé fjárhagslega í stakk búið að leysa þau stóru verkefni sem framundan eru og hafa verður í huga að fyrirtækið þarf að geta tekist á við breytingar og þróun í þjónustu og aðstöðu.  Fyrir liggur forgangsröðun þeirra verkefna sem fyrirsjáanleg eru og því á að vera hægt miðað við fjárhagsstöðu fyrirtækisins, að ná þeim markmiðum sem sett eru. Á næstu árum liggja fyrir stór verkefni í Vatnagörðum, á Grundartanga og á Akranesi auk þess sem viðhald  mannvirkja er kostnaðarsamt.  Samhliða þessum verkefnum er regluverk sífellt í þróun með auknum skyldum, einkum í umhverfismálum, sem m.a. tekur til undirbúnings verkefna.  Það á m.a. við um fyrirspurnarskyldu um umhverfismat verkefna, móttöku á sorpi, væntingum um öflugri landtengingar rafmagns og flóknari reglum varðandi varp dýpkunarefnis í hafið.  Allt kallar þetta á lengri undirbúningstíma verkefna og því þarf að ákveða verkefni með lengri fyrirvara en áður.   Landtengingar skipa er verkefni sem reikna má með að verði umfangsmikið á næstu árum.  Unnið verður að aðgerðaráætlun Faxaflóahafna sf. í þessu efni m.a. í samstarfi við Samskip, Eimskip, Íslenska NýOrku ehf. og Hafið-öndvegissetur.

Á næstu árum er fátt sem bendir til annars en að Faxaflóahafnir sf. geti áfram verið sjálfum sér nógar með rekstur, endurnýjun og nýframkvæmdir.

Reykjavík, 26. apríl 2019

Kristín Soffía Jónsdóttir,
formaður stjórnar Faxaflóahafna sf.

Gísli Gíslason,
hafnarstjóri