Skipulags- og lóðamál

Skipulags- og lóðamál

Unnið hefur verið að forsendum deiliskipulags á svonefndum Tollvörugeymslu- og Kassagerðarreit við Héðinsgötu og Köllunarklettsveg og nú liggur fyrir húsakönnun, sem  þýðir að unnt er að huga að framtíðardeiliskipulagi. Á svæðinu milli Klepps og Holtagarða hefur verið til skoðunar að koma fyrir starfsemi lögreglu, tolls, landhelgisgæslu og fleiri björgunaraðila.

Þá liggur fyrir samþykkt deiliskipulag á grundvelli tillögu Yrkis arkitekta um aðstöðu fyrir farþega hafsækinnar ferðaþjónustu á Ægisgarði og hefur það verkefni verið boðið út og bíður framkvæmda á árunum 2019 og 2020. Á Miðbakka og Austurbakka á sér stað talsverð þróun, en á Austurbakka hefur svæðið tekið verulegum breytingum með byggingum utan hafnarsvæðisins, sem hefur áhrif á nýtingu bakkans. Á Miðbakka hefur síðan verið til skoðunar breyting á nýtingu svæðisins sem gerir ráð fyrir auknu almenningsrými.

Í Örfirisey hef átt sér stað þróun og áfram eru til skoðunar skipulagshugmyndir á svonefndum Línbergs-reit.

Á Akranesi hefur verið til skoðunar stækkun lands vegna mögulegrar þróunar hafnarinnar, en hluti mannvirkja og þá aðallega fremsti hluti Aðalhafnargarðsins kallar á viðhald og endurnýjun.  Meginverkefnið hefur falist í breytingu á aðalskipulagi þannig að unnt verði að endurnýja fremsta hluta Aðalhafnargarðsins og lengja hann.  Löndun á fiski í Akraneshöfn hefur dregist saman síðustu ár auk þess sem  smábátaútgerð hefur átt undir högg að sækja eins og víða á landinu.  Aðstaða smábátaútgerðar í Reykjavík og á Akranesi er hins vegar góð og til skoðunar hvernig megi í samvinnu við útgerðaraðila efla þessa starfsemi að nýju.

Á Grundartanga eru Faxaflóahafnir þátttakandi í Þróunarfélagi Grundartanga, sem markmið félagsins er að vinna stefnu um framtíðarstarfsemi á svæðinu.  Þar eru einnig til skoðunar ýmis verkefni á vegum fyrirtækja á svæðinu m.a. á sviði skógræktar og nýtingu glatvarma.