Inngangur

Inngangur

Árið 2018 var Faxaflóahöfnum hagfellt, en rekstur fyrirtækisins gekk almennt vel og afkoman betri en ráð hafði verið fyrir gert. Tekjuaukning varð af nokkrum þáttum í rekstrinum en þó einkum hafnarþjónustu og skipagjöldum vegna fjölgunar farþegaskipa, en auk þess sem fleiri slík skip komu til hafnar en áður þá hefur stærð þeirra vaxið. Fram á mitt ár mátti sjá aukningu í vöruflutningum, sem má segja að hafi verið lýsandi fyrir almenna efnahagsþróun, en um eða upp úr miðju ári mátti merkja að í magni og samsetningu hafði ákveðnu hámarki verið náð.  Milli ára varð aukning inn- og útflutnings í tonnum talið miðað við árið 2017, en tekjur af vörugjöldum á milli ára stóðu nokkurn veginn í stað.  Framkvæmdir og verkefni á vegum hafnarinnar gengu almennt í samræmi við áætlun. 

Það er einkenni hafnarstarfsemi Faxaflóahafna að einstök hafnarsvæði eru í sífelldri þróun, en mest er þróunin áberandi í Sundahöfn og Gömlu höfninni.  Þróun hvers svæðis tekur mið af starfsemi til lengri tíma sem m.a. má sjá í þróun Sundahafnar, sem ætlað er að vera áfram megingátt inn- og útflutnings um ókomin ár. Í Gömlu höfninni má hins vegar sjá hvernig fjölbreytt starfsemi hefur tengst höfninni, en höfnin er í senn lifandi fiskihöfn í bland við ferðaþjónustu, þjónustu við skip og menningarstarfsemi.

Í hinum daglega rekstri hafa áherslu breyst jafnt og þétt.  Áherslan á umhverfismál er sífellt meiri, hvort heldur sem verkefnin taka til umhverfisfrágangs svæða, undirbúnings verkefna, aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eða móttöku á sorpi.  Til þess að ná þeim árangri sem að er stefnt í umhverfismálum er ljóst að framundan eru umfangsmikil verkefni m.a. varðandi landtengingu skipa.  Á árinu 2018 var hafin vinna við jafnlaunavottun og öryggisvottun, en þessi mál munu einnig skipta máli á komandi árum.  Í samanburði við erlendar hafnir eru Faxaflóahafnir jafnmikilvæg fyrir Ísland og stærstu hafnir Evrópu eru fyrir efnahag sinna landa.  Í umfangi er þó allnokkur munur á, en slíkt dregur þó ekki úr þeim metnaði sem þarf að vera til staðar til að skapa trygga og örugga starfsemi á hafnarsvæðunum, um leið og dregið er úr umhverfisáhrifum starfseminnar eins og kostur er.  Faxaflóahafnir eiga og geta verið öðrum höfnum fyrirmynd hvort heldur er innanlands eða erlendis.

 

Eignaraðilar Faxaflóahafna sf. og eignarhlutir þeirra voru í lok desember 2018 eftirfarandi:

Reykjavíkurborg 75,5551%
Akraneskaupstaður 10,7793%
Hvalfjarðarsveit 9,3084%
Borgarbyggð 4,1356%
Skorradalshreppur 0,2216%