Fjárfestingar og framkvæmdir
Fjárfestingar og framkvæmdir á árinu 2018
Skipting fjárfestinga eftir hafnarsvæðum er eftirfarandi:
m.kr. | % | |
Gamla höfnin | 251,6 | 17,3% |
Sundahöfn | 994.8 | 68,4% |
Grundartangi | 187,8 | 12,9% |
Akranes | 1,2 | 0,1% |
Annað | 19,2 | 1,3% |
Alls: | 1.454,6 | 100,0% |
- Í Gömlu höfninni í Reykjavík var lokið við endurnýjun viðlegubakka á Norðurgarði og var það stærsta einstaka verkefnið í Gömlu höfninni. Lokið var við endurnýjun hluta neðstu hæðar Bakkaskemmu. Ráðgert var að hefja framkvæmdir við söluhýsi hafsækinnar ferðaþjónustu á Ægisgarði en þegar tilboð lágu fyrir var samþykkt að hafna öllum tilboðum og færa verkefnið yfir á árið 2019. Af hálfu Reykjavíkurborgar var unnið að landfyllingu og frágangi svæðis við Sæbraut vegna uppsetningar innsiglingavita. Innsiglingarvitinn, sem var smíðaður á árinu 2018 var settur upp á árinu 2019.
- Í Sundahöfn var áfram unnið að byggingu nýs viðlegubakka utan Klepps. Verkefnið er viðamesta verkefni hafnarinnar og lýkur á seinni hluta árs 2019. Þá var unnið að undirbúningi yfirborðsfrágangs í tengslum við nýjan bakka utan Klepps og skipulagsvinnu farmstöðvarinnar í Sundahöfn og á Kleppslandi. Nýr viðlegubakki utan Klepps er stórt verkefni, sem gert er ráð fyrir að þjóni hluta Sundahafnar til næstu áratuga með dýpi og aðstöðu fyrir stærri skip en hingað til hafa verið notuð í flutningum til og frá Íslandi. Með framkvæmdinni er búið í haginn fyrir framtíðarhlutverk Sundahafnar, sem megingáttar til og frá Íslandi næstu áratugi. Þá var óskað eftir breytingu á aðalskipulagi í tengslum við mögulega landfyllingu við Klettagarða og nýta til þeirrar fyllingar burðarhæft efni sem kemur úr lóð Landsspítalans. Um er að ræða landfyllingu sem verður um 25.000-30.000 m2. Gangi verkefnið eftir hefjast framkvæmdir á árinu 2019. Tilgangur landfyllingarinnar er að mæta aðstöðuþörf fyrirtækisins á næstu árum, en skoða þarf ýmsa þætti í því sambandi vel m.a. með tilliti til óska Veitna um aukið landrými fyrir aukna hreinsun á frárennsli.
- Á Grundartanga var lokið við nýjan kantbita Tangabakka og hækkun þekju og baklands. Gengið var frá lóð og henni úthlutað í samræmi við samkomulag Faxaflóahafna sf. og Eimskipa.
- Á Akranesi hófst undirbúningur að endurnýjun og lengingu fremsta hluta Aðalhafnargarðs. Meginþungi framkvæmda er áætlaður á árinu 2020.
- Við Sævarhöfða unnið að landgerð á grundvelli samkomulags Faxaflóahafna sf. og Björgunar ehf., en Faxaflóahafnir seldu landið í Sævarhöfða til Reykjavíkurborgar. Miðað er við að Faxaflóahafnir ljúki áður umsömdum landgerðaráföngum á árinu 2019. Með þeirri landgerð sem hafin er í Sævarhöfða og þeim áföngum sem síðar verður farið í er ljóst að sú hafnaraðstaða sem þar hefur verið nýtt er nú lokuð.