Ávarp hafnarstjóra

Hafnir búa yfir aðdráttarafli.  Í senn laða þau til sín skip og hafnsækna starfsemi, sem skapar forsendur athafnalífs og skilar næsta nágrenni sínu arði með ýmsum hætti, en ekki síst öflugu atvinnulífi. Þá er ónefndur áhugi almennings á líflegu hafnarlífi og fallegum bátum og skipum.  Á hafnarsvæðum Faxaflóahafna eru allir þessir þættir áberandi í misjöfnum mæli þó og með misjöfnum hætti.  Fjölskrúðugast er hafnarlífið í Gömlu höfninni í Reykjavík, en starfsemin í Sundahöfn og á Grundartanga er þungamiðja flutninga til og frá landinu.  Á síðustu áratugum hafa öll hafnarsvæðin þróast í takt við breytingar þjóðfélagsins og aukinnar hagsældar.  Til þess að mæta breytingum og framtíðarþörfum hafa því margir lagt hönd á plóginn og lagt grunninn að öflugum hafnarsvæðum, sem ætlað er að sinna því mikilvæga hlutverki að tryggja þjóðinni greiða leið með vöru á erlenda markaði og innflutning á nauðsynjavöru.  Á vettvangi hafnarinnar er starfið margt.  Plássfrek starfsemi, sem þarf að hugsa til langs tíma þarf að búa í sátt við nágrenni sitt og mæta þeim umhverfiskröfum sem framtíðin kallar á að við leysum nú.  Um leið og nýir hafnarbakkar eru byggðir og land lagt undir hafnarstarfsemi er kallað eftir samstöðu allra um að haga starfsemi sinni þannig að umhverfisáhrifin verði í lágmarki.  Sú áskorun nær ekki aðeins til Faxaflóahafna heldur allra þeirra sem nýta land eða hafnarstöðu fyrirtækisins.

Árið 2018 var Faxaflóahöfnum hagfellt og afkoma fyrirtækisins góð.  Á síðustu árum hefur áhersla verið lögð á traustan fjárhag fyrirtækisins enda eru sem fyrr stór og mikilvæg verkefni framundan.  Segja má að þegar einu verkefni er lokið þá taki annað verkefni við.  Meginverkefni síðustu ára hefur verið bygging hafnabakka utan Klepps, sem fengið hefur nafnið Sundabakki.  Þeirri framkvæmd lýkur á haustdögum árið 2019, en bakkann munu nota skip sem eru næsta kynslóð flutningaskipa, stærri og djúpristari en þau sem nú eru notuð.  Í framhaldi bíða verkefni í Vatnagörðum, á Grundartanga og á Akranesi, sem raða þarf upp í áætlunum næstu ára. Til þess að halda takti við fyrirsjáanlega þróun á næstu árum er því nauðsynlegt að Faxaflóahafnir hafi þann slagkraft sem þarf til að leysa þessi verkefni á þeim tíma sem lagt er upp með.

Eyland án viðunandi hafna er samfélag í vanda.  Sjóflutningar eru Íslendingum lífsnauðsyn og þess vegna eru hafnir einn af hornsteinum samgöngukerfisins og hornsteinn í efnahagslífi landsins.  Það er þess vegna hlutverk Faxaflóahafna að tryggja vöxt og viðgang á grundvelli öruggra hafnarsvæða.  Á grundvelli samstarfs eigenda Faxaflóahafna og framtíðarsýn á hvert skuli stefna verða Faxaflóahafnir áfram lykilhlekkur í þróun atvinnu- og athafnalífs.

Gísli Gíslason,
hafnarstjóri