Dýpkun hafna

Faxaflóahafnir nýta eins og hægt er það efni sem verður til við dýpkun hafna. Dýpkun hafna getur krafist þess að fjarlægja þurfi mengað set sem koma þarf fyrir, t.d. í landfyllingum. Ávinningur við notkun dýpkunarefna til landgerðar er töluverður ef um tiltölulega ómengað efni er að ræða þar sem efnistaka og efniskaup sparast.

Efsta lag botnsets í höfnum getur innihaldið meira magn þungmálma og þrávirkra lífrænna efna (t.d. PAH og PCB) en það magn sem fyrir kemur í dýpri lögum. Þetta aukna magn má rekja til ýmissa aðgerða mannsins, bæði til aðgerða sem varða hafnarstarfsemi en ekki síst starfsemi sem er að öllu ótengd höfnum (s.s. bílaumferð, fráveitu o.s.frv.). Áður en dýpkunarefnum frá höfnum er ráðstafað eru gerðar ítarlegar mengunarmælingar á þeim og heppileg staðsetning fyrir losun þeirra er ávallt fundin í samráði við Umhverfisstofnun.

Fyrir liggur skráning á nýtingu á öllu dýpkunarefni Faxaflóahafna frá árinu 1985 til ársins 2017. Á þessu tímabili hefur tekist að nýta 74% af öllu dýpkunarefni til landgerðar.

Tafla 15 og mynd 10 sýna heildarmagn dýpkunarefnis sem nýtt var til landgerðar eða varpað í hafið árið 2017.

Tafla 15. Magn dýpkunarefnis sem nýtt er til landgerðar og varpað er í hafið árin 2016 og 2017

2016 2017
m3 m3
Dýpkunarefni nýtt til landgerðar 0 0
Dýpkunarefni varpað í hafið 0 36.410
Heildarmagn dýpkunarefnis 0 36.410


Mynd 10. Magn dýpkunarefnis sem nýtt var til landgerðar og varpað í hafið árin 2013 til 2017