Raforka – Notkun og sala

Faxaflóahafnir sjá um sölu raforku til skipa og báta í gegnum rafdreifikerfi auk þess að nýta það í eigin byggingum. Frá umhverfislegu sjónarmiði er æskilegt að nýta sem best raforku í byggingum. Auk þess er æskilegt að sala raforku til skipa í gegnum rafdreifikerfi aukist frá ári til árs til að koma í veg fyrir að olía sé notuð til að keyra ljósavélar. Aukin sala raforku dregur þannig bæði úr notkun eldsneytis, losun mengunar til umhverfisins og hávaða.

Faxaflóahafnir hafa sett inn nýtt ákvæði í gjaldskrá sína sem gildir til ársins 2025 um að fella niður bryggju- og lestargjald á rafknúna báta sem notaðir eru til skipulagðra siglinga með farþega.

Heildarraforkunotkunin (notkun og sala) jókst um 13% milli áranna 2016 og 2017. Aukning var á sölu rafmagns til skipa og báta, lækkun í notkun rafmagns í húsnæði Faxaflóahafna og notkun rafmagns á dráttarbáta. Tafla 2 og mynd 1 sýna raforkunotkun í byggingum Faxaflóahafna og sölu til skipa og báta. Sala rafmagns til skipa og báta jókst um 9% milli áranna og notkun rafmangs í húsnæði Faxaflóahafna dróst saman um 37% yfir sama tímabil. Aukning á sölu rafmagns til skipa og báta má að miklu leyti rekja til áhrifa verkfalls sjómanna á fiskiskipum á fyrri hluta árs 2017. Orkusalan hefur líkast til aldrei verið meiri hjá Faxaflóahöfnum en á meðan á því stóð.

Raforkunotkunin árið 2017 var á bilinu 61-95 kWst á fermetra í þeim þremur byggingum sem voru skoðaðar, mest í bækistöð við gömlu höfnina. Raforkunotkunin dróst saman í hafnarhúsinu á Akranesi og í skrifstofuhúsnæðinu í Tryggvagötu en jókst í bækistöð við gömlu höfnina. Á neðri hæð hafnarhússins á Akranesi er verkstæðisaðstaða þar sem nýting er breytileg frá ári til árs.

Tekið skal fram að Faxaflóahafnir leigja út u.þ.b. 70% af eigin húsnæði í Tryggvagötu til annarra og einungis er einn rafmagnsmælir fyrir allt húsnæðið. Því er aðeins hægt að áætla notkun Faxaflóahafna út frá fermetrafjölda sem er í notkun Faxaflóahafna. Stór hluti leiguhlutans hefur staðið auður og því hefur dregið verulega úr orkunotkun í húsinu.

Tafla 2. Raforkunotkun í byggingum Faxaflóahafna og sala raforku til skipa og báta árin 2016 og 2017.

2016 2017 2016 2017
kWst kWst Breyting kWst / m2 kWst / m2
Raforkunotkun í byggingum:
Bækistöð, gamla höfnin 108.771 118.042 9% 88 95
Skrifstofuhúsnæði í Tryggvagötu, leigjendur og skrifstofa Faxaflóahafna 366.595 232.007 -37% 63 40
Skrifstofuhúsnæði í Tryggvagötu,húsnæði í notkun Faxaflóahafna* 105.699 66.894 -37% 63 40
Hafnarhús á Akranesi 19.209 12.834 -33% 91 61
Heildarraforkunotkun í byggingum Faxaflóahafna 494.575 362.883 -27%
Heildarraforkunotkun í byggingum sem nýtt er af Faxaflóahöfnum 233.679 197.770 -15%
Raforkunotkun á dráttarbáta Faxaflóahafna 143.175 133.899 -6%
Rafdreifkerfi (rafmagn selt til skipa og báta) 4.845.065 5.679.578 17%

*áætluð notkun

 

Mynd 1. Rafmagnssala til skipa og báta og notkun rafmagns á dráttarbáta og í byggingum í notkun Faxaflóahafna árin 2013 til 2017