Útstreymisbókhald Faxaflóahafna sf. 2018
Á árinu 2016 var unnið á vegum Faxaflóahafna, Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar verkefni sem bar heitið: Forkönnun á aukinni notkun endurnýjanlegra orkugjafa við Faxaflóahafnir. Verkefnið var unnið af Háskóla Íslands af Darra Eyþórssyni. Ein af niðurstöðum verkefnisins var að eindregið var mælt með því að Faxaflóahafnir tækju upp útstreymisbókhald fyrir viðskiptavini hafnanna. Töluverð vinna hefur farið fram erlendis til þess að þróa áreiðanlegar aðferðir til að útbúa slík kerfi. Við skoðun kom í ljós að ekki eru til staðlaðar aðferðir á alþjóðavísu heldur hafa þær þróast í hverju landi fyrir sig. Fulltrúar Faxaflóahafna heimsóttu á umliðnum vetri Gautaborgarhöfn sem hefur langa reynslu í slíku útstreymisbókhaldi. Sænska umhverfisráðgjafarfyrirtækið IVL í Stokkhólmi hefur annast bókahaldið og þróað gerð þess í gegnum tíðina. Sama fyrirtæki hefur einnig annast bókhaldið fyrir fleiri hafnir í Svíþjóð, m.a. höfnina í Stokkhólmi.
Faxaflóahafnir leituðu því til fyrirtækisins IVL um gerð slíks bókhalds og hefur skýrslan fyrir útblástur skipa innan Faxaflóahafna á árinu 2018 nú verið gefin út.
Bókhaldið byggir á þeirri forsendu að útblástur skipa er reiknaður frá því að það kemur inn fyrir hafnarmörkin þangað til það fer út úr þeim aftur. Útblásturinn er því reiknaður bæði við siglingu skipa innan hafnar og við bryggju.
Sjá nánar með því að smella á mynd hér til hliðar.